
Frá því að ég var lítil stelpa hef ég verið með fjörugt ímyndunarafl, stanslaust að búa til sögur og hanna bækur með tilheyrandi föndri áður. Ég eyddi frítíma mínum á bókasöfnum, með höfuðið ofan í bókum þar sem ég ferðaðist milli mismunandi heima og hitti þar ótal persónur sem mótuðu mig í stelpuna sem ég er í dag :)
Fyrir mér er ritstjórn meira en bara að fara yfir texta og málfræði, heldur snýst hún um að skapa tóninn og tilfinninguna sem lesendur eiga að upplifa. Hún snýst um að grípa lesendur svo þeir vilji ekki leggja bókina, smásöguna, ritgerðina, eða greinina, frá sér og hugsi enn um hana löngu eftir að þeir hafa lesið seinustu blaðsíðuna.
Brot af því besta
Um mig
Ég útskrifaðist haustið 2022 með MA-gráðu í hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands og árið 2021 með BA-gráðu í félagsfræði. Í náminu fékk ég tækifæri á að vera hluti af ritstjórnarteymi á bókinni Takk fyrir komuna sem var unnin í samstarfi við ritlistarnema og gefin út af UNU útgáfu. Með þessu verkefni lærðum við allt sem fylgir því að gefa út bók, frá því að útvega fjármagn og yfir í að skipuleggja útgáfuteiti. Bókin fékk svo góða dóma og er einstaklega skemmtilegt samansafn af ljóðum og smásögum sem ég hvet alla til að lesa. Ég tók svo starfsnámið mitt hjá Storytel á Íslandi þar sem ég fékk að spreyta mig í fjölbreyttum verkefnum. Þar tók ég meðal annars þátt í að ritstýra fjölbreyttu úrvali af handritum, sinna þýðingum, ritstýra hljóðbókum og lærði einnig heilmikið um höfundarrétt, útgáfur og samningatækni.
Ég vann einnig um stund hjá Birtíngi þar sem ég skrifaði greinar og pistla fyrir tímaritið Vikuna. Þar vann ég náið með ritstjóra í hverri viku til þess að gefa út tímaritið, sjá um samfélagsmiðla og uppfæra vefinn með nýjustu greinunum. Þar lærði ég töluvert mikið um ferlið sem fylgir útgáfu tímarits, allt frá uppsetningu til markaðssetningar. Því næst tók ég að mér stöðu sem verslunarstjóri í einni stærstu bókabúð landsins, Bóksölu Stúdenta í HÍ, þar sem ég fékk dýrmæta reynslu í rekstri. Ég fékk einnig að sjá um markaðsmál bóksölunar og lærði heilmikið um hvernig á að selja bækur og ritföng, reka búð og halda utan um starfsmannahóp.
Seinustu þrjú ár hef ég svo einnig unnið sjálfstætt bæði hérlendis og erlendis þar sem ég hef tekið að mér ýmis verkefni; allt frá því að skrifa pistla, þýða texta, ritstýra bókum og smásögum, textasmíði og umsjón með vefritstjórn og öðrum miðlum. Ég hef góð tök á bæði ensku og íslensku en ég ólst upp í Afríku og Asíu þar sem ég sótti alþjóðlegt nám og tel ég því ensku einnig vera móðurmál mitt með fram íslenskunni. Í dag bý ég í Portúgal og einblýni örlítið meira á að veita þjónustu á Ensku vegna þess. Ég deili miklu efni í gegnum Instagramið The Editors Nook sem má flokka sem tegund "bookstagram" en ég lýt meira á mig sem "writing coach". Ég bý sjálf til námsefni og vinnubækur fyrir höfunda og stefni á að veita þessa þjónustu á Íslensku í framtíðinni. Ég er þó enn virk í bókmenntasenunni heima á klakanum og tek að mér ýmis verkefni þar líka :)
Ég hef því mikla reynslu og ástríðu sem knýr mig áfram í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur, og ég hlakka til að vinna með þér!
Hafðu samband
Ég er ávallt að leitast eftir nýjum og spennandi tækifærum og er opin fyrir allskonar samstarfi, svo ekki hika við að senda mér línu!
(+354) 846 5332